Home Fréttir Í fréttum Fern ný jarðgöng undirbúin á næsta ári

Fern ný jarðgöng undirbúin á næsta ári

53
0
Fjarðarheiðargöng eru næst á dagskrá en fern önnur göng verða undirbúin á næsta ári. Gangamunni Seyðisfjarðarmegin – Vegagerðin/Umhverfismatsskýrsla

Undirbúningur hefst við fern ný jarðgöng á næsta ári samkvæmt forgagnröðun starfsstjórnar í tengslum við nýsamþykkt fjárlög. Framlög til samgöngumála hækka um 17%.

<>

Framlög til samgöngumála hækka um 9 milljarða í nýsamþykktum fjárlögum, eða um 17%. Undirbúningur hefst við fern ný jarðgöng en engar gangaframkvæmdir fara af stað. Næsta ár verður fimmta árið í röð sem ekkert er grafið.

Ekki tókst að afgreiða nýja samgönguáætlun á Alþingi og voru framkvæmdir næsta árs í óvissu. Gildandi samgönguáætlun hafði rakast verulega. Eftir að fjárlög voru samþykkt var á vef stjórnarráðsins í gær birt forgangsröðun eða yfirlit um framkvæmdir næsta árs.

Stærstu framkvæmdir í vegakerfinu eru á Reykjanesbraut milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns, áframhaldandi framkvæmdir við Hornafjarðarfljót, vegur um Gufudalssveit og yfir Dynjandisheiði á Vestfjörðum og Brekknaheiði á milli Bakkafjarðar og Þórshafnar.

Þá hefjast framkvæmdir við nýja Ölfusárbrú á næsta ári. Fyrsta skóflustungan verður tekin í dag en veggjöld eiga að skila til baka peningunum sem fara í framkvæmdina.

Fjarðarheiðargöng bíða áfram

Fé verður líka sett í að undirbúa stórar framkvæmdir svo sem Sundabraut og fern ný jarðgöng. Fljótagöng, ný Hvalfjarðargöng, göng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur og Súðavíkur og Ísafjarðar. Ekki er gert ráð fyrir að framkvæmdir fari af stað við Fjarðarheiðargöng á næsta ári enda beðið eftir niðurstöðu vinnustofu um gjaldtöku í göngum. Göngin eru tilbúin til útboðs og fremst í röðinni í áætlun um að hraða gerð jarðganga á næstu árum með gjaldtöku.

Tveir og hálfur milljarður fara í að leggja slitlag á tengivegi og einbreiðum brúm verður fækkað um fimm.

6,7 milljarðar fara í verkefni samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu, Fossvogsbrú, Arnarnesveg, hjóla- og gögnustíga og bætta umferðarstýringu.

Flugstöð á Akureyri og akstursbraut og hlað á Egilsstaðaflugvelli

Varaflugvallagjald er farið að skila tekjum til aukinna framkvæmda. 4,7 milljarðar fara meðal annars í flugstöð á Akureyri og undirbúning að akbraut og flughlaði á Egilsstöðum. Einnig verður fé varið í endurbætur og viðhald á minni flugvöllum. Flug til Vestmannaeyja og Húsavíkur verður áfram styrkt.

Þá fara 1,6 milljarðar í hafnir og sjóvarnir en nánari lista yfir framkvæmdir má sjá á vef stjórnarráðsins.

Heimild: Ruv.is