Home Fréttir Í fréttum Kostnaður við nýtt fangelsi tvöfaldaðist frá fyrstu áætlunum

Kostnaður við nýtt fangelsi tvöfaldaðist frá fyrstu áætlunum

66
0
Frá Litla-Hrauni. Nýtt fangelsi mun rísa á Stóra-Hrauni á næstu árum. Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir 7 milljarða króna byggingakostnaði, en uppfærð áform gera ráð fyrir 14 milljörðum. Samsett mynd – Kristrún Eyjólfsdóttir

Nýtt fangelsi verður reist á Stóra-Hrauni í stað núverandi fangelsis að Litla-Hrauni. Kostnaðaráætlun er 14 milljarðar, en fyrst var gert ráð fyrir 7 milljörðum. Ráðherra segir að húsið verði stærra og aðbúnaður hugsaður til framtíðar.

<>

Kostnaðaráætlanir vegna byggingar á nýju fangelsi á Litla Hrauni hafa tvöfaldast frá því að Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra tilkynnti um áformin fyrir tæpu ári síðan. Þá sagði hún að nýtt fangelsi myndi kosta 7 milljarða króna í byggingu, en samkvæmt uppfærðum áætlunum er núna gert ráð fyrir því að heildarkostnaður verði 14 milljarðar króna.

Morgunblaðið sagði fyrst frá uppfærðum áætlunum.

Ráðherra kynnti áform um nýtt fangelsi á Litla-Hrauni á blaðamannafundi í september í fyrra. Þá sagði hún ljóst að eftir úttekt á aðstöðunni þar væri ljóst að nauðsynlegt væri að ráðast í byggingu nýs fangelsis.

Úr 85 plássum í 100
Ráðherra sagði í samtali við fréttastofu í morgun að vissulega væri þetta mikill munur en það skýrðist bæði af breyttum aðstæðum og uppfærðum áætlunum. Sjö milljarðar hafi til dæmis miðað við 85 fangapláss sem er nú kominn upp í 100 pláss, og eins hafi komið í ljós að húsakosturinn á Litla-Hrauni var í mun verra ástandi en talið var og því ekki hægt að nýta þær byggingar til framtíðar.

Frá Litla-Hrauni.

Frá Litla-Hrauni á Stóra-Hraun
Nú hefur verið ákveðið að nýtt fangelsi verði byggt á nærliggjandi landi, Stóra-Hrauni, sem er í ríkiseigu. Ráðherra segir að undirlendi á Litla-Hrauni sé mjög blautt og mikil flóðahætta. Stóra-Hraun sé á betri stað hvað það varðar.

„Það er kostnaðarauki að byggja stærra,“ segir hún.

„Þá erum við að horfa til framtíðar. Við erum að fara að fara í mjög metnaðarfullt verkefni þar sem við ætlum að byggja nútímalegt fangelsi með stækkunarmöguleikum. Þá erum við líkað hugsa til þess að stoðþjónusta sem þarna verði byggð upp muni geta nýst til farmtíðar ef það verður stækkað eða fjölgað fangaplássum.“

Þá er nú gert ráð fyrir að steyptur veggur verði í kringum nýja fangelsið í stað girðingar, sem er dýrari framkvæmd til að byrja með, en sparar viðhald til lengri tíma litið.A

Ákveðinn sparnaður í því að hafa ekki byggt í 20 ár
Hún segir að vissulega sé þetta dýr framkvæmd, enda sé dýrt að byggja fangelsi sem uppfyllir ströngustu öryggiskröfur.

Þar að auki hafi lengi verið þörf á nýju fangelsi.

„Það hefur staðið til að byggja fangelsi í 20 ár, og við getum rétt ímyndað okkur að það hefur verið ákveðinn sparnaður í kerfinu að hafa ekki farið í það. Nú verður ekki framhjá því komist að ráðast í byggingu á nýju fangelsi.

Henni þyki miður að þær tölur sem hún lagði upp með fyrir ári síðan, standist ekki.

„En eins og ég segi erum við að fara að byggja stærra fangelsi.“

Hún segist eiga von á að jarðvegsvinna hefjist á Stóra-Hrauni í vor og í framhaldinu geti framkvæmdir hafist.

Samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmdasýslunni, Ríkiseignum er verkefnið nú á stigi frumathugunar og er unnið er að undirbúningi alútboðs. Gert er ráð fyrir að fangelsið, sem verður 14 þúsund fermetrar, verði tekið í notkun undir lok árs 2028.

Heimild: Ruv.is