„Hugur Reita er með verslunareigendum og er áherslan nú á að vinna hratt með þeim að viðgerðum.“
Reitir fasteignafélag segir að áhrif brunans í Kringlunni séu mest á afmörkuðu svæði sem spannar um 10 af um 150 rekstrareiningum í húsinu. Fasteignafélagið sé vel tryggt og hefur samstarf við Sjóvá verið gott. Staðan verður metin með tryggingarfélaginu á næstu dögum.
„Á laugardaginn kviknaði eldur í þaki austurhluta Kringlunnar. Hugur Reita er með verslunareigendum og er áherslan nú á að vinna hratt með þeim að viðgerðum svo verslanirnar geti opnað aftur sem allra fyrst,“ segir í Kauphallartilkynningu.
Til stendur að opna Kringluna á fimmtudaginn en hún hefur verið lokuð frá því á laugardaginn.
„Staðan verður að fullu metin með tryggingafélaginu á næstu dögum en ekki er fyrirsjáanlegt að bruninn hafi áhrif á afkomuhorfur Reita vegna ársins 2024“ segir í Kauphallartilkynningu.
Samsett hlutfall Sjóvá á fyrsta ársfjórðungi var 97%. Samsett hlutfall er sú stærð sem helst er horft til í tryggingarekstri er samsett hlutfall, sem sýnir hlutfall kostnaðar af iðgjöldum, en um er að ræða aðferð sem sýnir hvernig rekstur vátryggingahluta tryggingafélaga gengur.
Ef hlutfallið er 100% duga iðgjöld tiltekins tímabils fyrir öllum gjöldum sama tímabils en ef hlutfallið er yfir 100% standa iðgjöld ekki undir kostnaði og tap er af vátryggingarekstrinum.
Afkoma Sjóvá af vátryggingasamningum fyrir árið 2024 var áætluð í árshlutauppgjöri fyrsta ársfjórðungs í kringum 1,1 til 1,6 milljarðar og samsett hlutfall 95-97%.
Heimild: Vb.is