Formaður Verkfræðingafélags Íslands gagnrýnir eftirlitsleysi með byggingarefnum sem notuð eru hér á landi, eftir að Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins var lögð niður. Heilsufarshættuna þurfi líka að rannsaka.
Rannsaka þarf betur þau byggingarefni sem eru í notkun hér á landi vegna fjölda tilfella um myglu í húsum. Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands, segir engan bera ábyrgð á slíku eftir að Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins var lögð niður fyrir um þremur árum.
Síðast um helgina var fjallað um stöðu mála í nýjum Kársnesskóla sem enn er í byggingu, þar sem marga mánuði hefur tekið að lagfæra myglu- og rakaskemmdir í burðarvirkinu.
„Það sem ég er að benda á er að mygla hefur alvarlegar afleiðingar á heilsu fólks. Þetta er ekki bara verkfræðilegt viðfangsefni. Þessi mygla, þetta er sveppaeitur og hefur áhrif á hormónakerfi og taugakerfi. Þess vegna segi ég það að þetta er grafalvarlegt mál,“ sagði Svana Helen í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins sinnti rannsóknum á byggingarefnum, en hún var hluti af Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem samþykkt var að leggja niður fyrir um þremur árum og áttu verkefni hennar að flytjast annað. Svana Helen sagði að í löndunum í kringum okkur séu þessi mál á forræði hins opinbera og séu hluti af innviðaöryggi.
Hún segir evrópskar vottanir efna hafi lítið vægi hér vegna veðurfars og sveiflu milli frosts og þýðu. Það brjóti niður efni á annan hátt.
„Þetta þarf að rannsaka og hver á að rannsaka þetta, ef ekki Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld? Það sem ég er að benda á er að það flæða yfir okkur alls konar byggingarefni og það er enginn sem ber ábyrgð á að skoða þau,“ sagði Svana Helen.
Heimild: Ruv.is