Fulltrúar Landsnets, ásamt fleirum, standa nú fyrir tilraun til þess að meta öryggi rafstrengja, háspennumastra og lína á eldgosasvæði. Til þess að meta þetta setur Landsnet upp möstur og grefur strengi á svæði þar sem búist er við að hraun muni flæða á næstu dögum til þess að geta undirbúið sig undir slíkar aðstæður í framtíðinni. Um nýmæli á heimsvísu er að ræða en tilraun sem þessi hefur aldrei verið framkvæmd áður.
Að verkefninu koma meðal annarra, Landsnet, Verkís, Efla og Háskóli Íslands.
„Það sem við byrjuðum á að gera er að láta herma hvert hraunið er að fara núna miðað við aðstæðurnar uppi á gosstöðvunum. Þá sjáum við leiðina sem að það er að fara og ákváðum þar með að grafa háspennurafstreng þannig niður í jörðina og ganga frá honum eins og gengið er frá honum ef að um raunverulega lagningu háspennujarðstrengs væri að ræða.
Með sérstökum sandi, dýptina […] og setja jafnframt hitamæla með strengnum og mæla hvað það hitnar mikið í kringum svona rafstreng ef hraun rennur yfir hann,“ segir Halldór Halldórsson, öryggisstjóri Landsnets og formaður neyðarsamstarfs raforkukerfisins í samtali við mbl.is.
Tilgangurinn með þessu sé að sjá hvort að strengur lifi af hita hraunsins og hvað Landsnet hafi langan tíma til þess að finna varaleiðir eða bæta tjónið með því að koma rafmagninu á réttan stað með einhverjum öðrum hætti.
„Tilraun sem aldrei hefur verið gerð áður í heiminum“
„Síðan til viðbótar þá erum við líka að setja háspennumastur inn í hraunrásina til þess að geta prófað leiðigarða eða varnargarða sem að við erum í raun og veru búin að hanna í hermi en höfum ekki getað prófað í raun hvort slíkir garðar gætu varið möstur.
Til viðbótar þó að mastrið þoli það, þá erum við líka að kanna hvort að línan sem væri þá fyir streng fyrir ofan hraun, þá erum við með hitamæla í sömu hæðum og 130 kílóvolta línur og 220 kílóvolta línur eru strengdar í.
Við ætlum að safna mæligögnum um hvað hitnar mikið og þó að við verjum mastrið, hvort að línan þoli þetta,“ segir Halldór. Með þessum mælingum sé hægt að setja þær upplýsingar inn í hönnunarforsendur og ákvarða hvaða vír þurfi við aðstæður sem þessar, hvaða hita hann skuli geta þolað.
„Þetta er tilraun sem aldrei hefur verið gerð áður í heiminum, alltaf verið gerð í einhverjum hermilíkönum þannig þetta yrðu ansi verðmætar upplýsingar, ekki bara fyrir okkur heldur önnur samfélög þar sem hætta er á eldgosum. Þetta er vísindaverkefni þar sem niðurstöðurnar verða gefnar út og kynntar formlega þannig að aðrir munu geta notað þetta,“ segir hann.
Spurður hvort að tilraunin hafi verið lengi í vinnslu segir hann umræður hafa farið af stað í kringum hönnun Suðurnesjalínu tvö. Þegar byrjað hafi að gjósa hafi hraunið eins geta farið í norður eða suður.
„Þá fórum við að hugsa strax um leiðir, hvernig við gætum varið Suðurnesjalínu 1 ef að hraunið færi að renna þarna niður eftir. Svo fór það ekki að renna í þá áttina þannig að þá ákváðum við hjá Landsneti í samráði við almannavarnir að nota samt tækifærið og reyna að gera alvöru tilraunir í kringum gosið eins og það er núna og ná okkur í þekkingu og upplýsingar,“ segir Halldór.
Megin niðurstöður væntanlegar um miðjan ágúst
Hann segir verkefnið nokkuð stórt.
„Við fengum til liðs við okkur strax Ara Guðmundsson hjá Verkís og Jón Hauk hjá Eflu sem hafa verið að vinna með okkur almennt þannig þeir eru með grunnupplýsingar og þekkingu og síðan Þorvald og Ármann doktora í eldfjallafræðum hjá háskólanum,“
Búist er við því miðað við hraunlíkön að hraun muni renna yfir svæðið um þarnæstu helgi, mælingar verða í fullum gangi allan tímann og fylgst verður vel með svæðinu.
„Fljótlega upp úr því þá sjáum við hvort að jarðstrengurinn lifir af um leið og það fer auðvitað yfir og svo verðum við bara með stöðugar mælingar á meðan að hraunið er heitt og ferskt og svo náttúrulega kolar það sig og kólnar. Við verðum með stöðugar mælingar þangað til að eðlilegur umhverfishiti er kominn á svæðið,“ segir Halldór.
Megin niðurstöður tilraunarinnar eru væntanlegar um miðjan ágúst.
Heimild: Mbl.is