Home Fréttir Í fréttum Vilja kanna kostina við að reisa 400 megavatta vindorkuver

Vilja kanna kostina við að reisa 400 megavatta vindorkuver

88
0
RÚV – Ragnar Visage

Tuttugu vindmyllur gætu risið nærri Hellisheiði, ef áform Orkuveitu Reykjavíkur verða að veruleika. Hún vill kanna kosti þess að reisa fjögurhundruð megavatta vindorkuver á þremur stöðum.

<>

Orkuveita Reykjavíkur vill kanna kosti þess að setja upp vindorkuver á þremur stöðum í nágrenni Hellisheiðar. Myllurnar gætu orðið tuttugu talsins, hver og ein um tvöhundruð metra há, miðað við núverandi forsendur.

Orkuveitan hefur lagt fram beiðni um að verkefnisstjórn rammaáætlunar fjalli um þrjá vindorkukosti, við Lambafell í Þrengslunum, Dyraveg í Ölfusi og Lyklafell í Mosfellsbæ. Samtals sækir Orkuveitan um 400 megavatta vindorkukosti við Hellisheiði. Til samanburðar framleiðir Kárahnjúkavirkjun um 690 megavött.

„Eins og staðan er núna þá sækjum við um stærsta mögulega rammann og svo hönnum við okkur inn í hann,“ segir Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra rannsókna hjá OR.

Samtals eru þetta um 400 megavött. Ekki sé þó búið að taka ákvörðun um að einhver þeirra verði reistur, hvað þá endilega allir þrír.

Erfitt að segja til um hvað myllurnar yrðu háar eða margar

Hera segir að tækninni fleygi fram, og því sé erfitt að segja til um á þessu stigi hvað myllurnar yrðu háar eða margar. Orkuveitan miðar í dag við vindmyllur sem eru 200 metra háar með spaða í efstu stöðu, en þær gætu orðið lægri.

„Ef við myndum fylla upp í allan rammann sem við sækjum um, þá erum við að tala um myllur sem eru hver um sig um 7 megavött. Og þá gætu þetta orðið, ef ég skýt á eitthvað, um tuttugu myllur. En þetta er bara miðað við frumútreikninga dagsins í dag.“

Vindmyllur eru umdeildar, og margir hafa áhyggjur af umhverfisáhrifum þeirra, til dæmis að þær skemmi útsýnið. Hera segir slíkt eitthvað sem hugsað hafi verið um þegar farið í val á staðsetningu þeirra.

„Við völdum okkur frekar að vera á röskuðum svæðum þar sem mætti mögulega sjást í þær, þar sem þær væru fjarri vinsælum ferðamannastöðum og útivistarperlum, sömuleiðis að vera í nálægð við okkar virkjanir hér á Hellisheiði svo við gætum lært af þessu á sama tíma.“

Heimild: Ruv.is