Niðurstaða er fengin í samkeppni um hönnun endurbóta og stækkunar aðstöðu fangelsisins Litla-Hrauns á Eyrarbakka.
Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) fóru með verkefnið í nýstárlegan farveg, þar sem leitað var eftir skissutillögum frá hönnuðum. VA arkitektar hafa í kjölfarið verið valin til að útfæra nauðsynlegar breytingar og stækkun aðstöðu.
Verkefnið á Litla-Hrauni er óvenju flókið uppbyggingar- og endurbótaverkefni. Um er að ræða svæði með 10 byggingum þar sem elstu byggingarnar eru frá 1920 en sú nýjasta, skrifstofuhús fangelsisins var tekin í notkun fyrir aldarfjórðungi. Það flækir málin enn að fangelsið verður í fullri notkun á framkvæmdatímanum.
Endurbætur nú koma í kjölfar alvarlegra athugasemda alþjóðlegrar nefndar gegn pyndingum og vanvirðandi meðferðar á föngum. Nánast ómögulegt er að koma í veg fyrir að fíkniefni berist inn í fangelsið og enn erfiðara að koma í veg fyrir dreifingu þeirra innan þess.
Aðstaða heilbrigðisstarfsfólks er með öllu ófullnægjandi og kemur í veg fyrir nauðsynlegt samstarf fangelsis- og heilbrigðisyfirvalda. Þá hefur Vinnueftirlitið gert athugasemdir við vinnuaðstöðu jafnt fanga og varða þeirra.
VA arkitektar eru valdir til verkefnisins að loknu ítarlegu ferli. Auglýst var eftir þátttakendum í lokað útboðsferli.
Fjórir aðilar tóku þátt í ferlinu sem fólst í vettvangsferðum, fyrirlestrum og kynningum um starfsemi fangelsa, viðtölum við starfsfólk og sérfræðinga og endaði í skissuferli þar sem hver og einn þátttakandi setti fram sínar hugmyndir að lausnum. Á grundvelli tillagna voru svo VA arkitektar valdir.
Breytingarnar sem VA arkitektar munu teikna felast í að nútímavæða fangelsið. Gert er ráð fyrir að þeim verður skipt upp í þrjá afanga; í þeim fyrsta yrði byggt nýtt þjónusthús, varðstofu ásamt tengingum við álmur fangelsisins, nýtt hlið og tengingu fyrir lögreglu.
Í öðrum áfanga verðar gerðar breytingar á húsi 2, kennslusali og skrifstofur og þá verði eldhús matasalur og starfsmannaaðstaða færð ásamt innri og ytri breytingum í húsunum..
Lokaáfanginn felst svo í byggingu nýs fjölnotasalar og uppbyggingu útisvæðis ásamt því að girðingar verða færðar og fjósið rifið.
Gert er ráð fyrir að byggðir verði 1.300 – 1400 fermetrar nýs húsnæðis í verkefninu og 2.000 fermetrar eldra húsnæðis endurgerðir í verkefninu.
Unnið er að samningagerð við hönnuði. Þá hefur farið fram forval á verktökum fyrir verkefnið og gert ráð fyrir að vali á þeim ljúki í lok nóvembermánaðar.
Heimild: FSRE.is