Home Fréttir Í fréttum Norðurál í 16 milljarða framkvæmdir

Norðurál í 16 milljarða framkvæmdir

226
0
Mynd: RUV.is
Norðurál segir að spara megi orku sem nemur 40 prósentum með því að fullvinna verðmætara ál. Framkvæmdir vegna breytinganna eru hafnar og áætlaður kostnaður er 16 milljarðar króna. Allt að 90 störf skapast á framkvæmdatímanum en varanleg viðbótarstörf verða 40.

Fyrirtækið undirbýr nýja framleiðslulínu þar sem framleiddir verða álstangir eða sílvalningar og eru framkvæmdir við breytingarnar þegar hafnar.

<>

„Það má segja að við séum að stíga skref áfram í virðiskeðjunni. Í dag eru álhleifarnir okkar fluttir til Evrópu, þeir eru bræddir og síðan mótaðir í álsívalninga, en núna erum við að færa þá framleiðslu upp á Grundartanga þannig að verðmætasköpunin verður á Íslandi og þar af leiðandi mun umhverfisvænni,“ segir Sólveig Bergmann, yfirmaður samskipta hjá Norðuráli.

Álið fer í framleiðslu á bílum meðal annars og tæknibúnað ýmiss konar. Að sögn Sólveigar eru álið sem framleitt er hjá Norðuráli með kolefnisspor sem er innan við fjórðungur af heimsmeðaltali álframleiðslu. Bæta þarf við 10mw orku vegna breytinganna.

„Þetta er um eitt prósent af þeirri orku sem Norðurál notar í dag og sú orka hefur verið tryggð með samningum við Landsvirkjun. En á móti kemur, ef við horfum á heildarmyndina, þá er orkusparnaður við það að þessi framleiðsla fari fram hér á landi, hún er 40 prósent.“

Þetta er fjárfesting upp á um 16 milljarða króna og er fjármögnuð af Arionbanka með svokallaðri grænni fjármögnun. [grafík] Sem fyrr segir eru framkvæmdir þegar hafnar og hér má sjá tímalínuna, undirbúningur hófst á síðasta fjórðungi liðins árs og er gert ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið á fyrsta fjórðungi 2024.

„Á framkvæmdatímanum sjálfum þá eru þetta 80 til 90 störf sem að verða uppi á Grundartanga, síðan eru varanleg störf 40. Þannig að núna er starfsfólk Norðuráls 600, en verður 640.“

Heimild: Ruv.is