Í Hafnarfirði er nú, rétt eins og á höfuðborgarsvæðinu öllu, mikil eftirspurn eftir lóðum undir íbúðarhús. Fyrirspurnir eru margar og samkvæmt því þarf að halda vel á spöðunum í allri skipulagsvinnu, samkvæmt svörum sem fengust frá Hafnarfjarðarbæ.
Uppbygging er til dæmis langt komin í Skarðshlíðarhverfinu og Vallahverfið orðið fullbyggt. Áætlað er að á Völlumum, í Skarðshlíð og Hamranesi verði um 15 þúsund íbúar.
Nýju hverfin rjúka upp
„Hamraneshverfið er langt á veg komið og gengur mjög vel að byggja þar,“ segir Valdimar Víðisson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar og verðandi bæjarstjóri síðar á kjörtímabilinu. Meðal annars er Bjarg íbúðafélagið að byggja þar 150 íbúðir og er áætlað að hluti af þeim verði kominn í notkun um næstu áramót.
Nýr grunnskóli í Hamranesi er á teikniborðinu og á hann að taka við nemendum úr hverfinu.
„Ásland 4 er næsta íbúðasvæði sem verður úthlutað. Þar er gert ráð fyrir einbýlis- og parhúsum, raðhúsum og litlum fjölbýlishúsum með sérinngöngum og lítilli sameign. Undirbúningsvinna stendur yfir og ég á von á að við getum byrjað að úthluta þar í haust,“ segir Valdimar.
Heimild: Mbl.is