Home Fréttir Í fréttum Fólk sem þráir að læra iðn fær ekki inn­göngu í námið

Fólk sem þráir að læra iðn fær ekki inn­göngu í námið

93
0
Námsframboð hér á landi er í engu samræmi við þær þarfir sem blasa við á byggingamarkaði þar sem auka þarf húsasmíði um fjórðung á næstu árum til að mæta eftirspurn og mannfjöldaþróun. Fréttablaðið/Anton Brink

Breyta þarf skóla­kerfinu á Ís­landi og búa til heild­ræna mennta­stefnu svo al­var­legur mann­afls­skortur verði ekki í stórum at­vinnu­greinum.

<>

Nýja hugsun vantar í menntamál þjóðarinnar, að mati Hildar Ingvarsdóttur, skólastjóra Tækniskólans, en að minnsta kosti sjö hundruð manns var vísað frá iðnnámi á Íslandi á síðasta ári á sama tíma og minnst tvö þúsund iðnaðarmenn vantar til starfa hér á landi, samkvæmt rannsóknum sérfræðinga á vegum Samtaka iðnaðarins.

Umfjöllun Fréttablaðsins í vikunni um þetta efni hefur vakið athygli, en námsframboð hér á landi er í engu samræmi við þær þarfir sem blasa við á byggingamarkaði þar sem auka þarf húsasmíði um fjórðung á næstu árum til að mæta eftirspurn og mannfjöldaþróun.

„Það þarf að breyta skólakerfinu,“ segir Hildur. „Annaðhvort þarf meira fjármagn í starfsmenntaskóla sem eru helgaðir iðnnámi eða að aðrir skólar taki upp iðnnám,“ bætir hún við.

Hildur Ingvarsdóttur, skólastjóri Tækniskólans. Mynd/Aðsend

Vísað frá af sökum aldurs
Hildur tekur dæmi af tvítugum nýstúdent sem sakir aldurs varð að vísa frá iðnnámi nýverið, af því að þar ganga nýútskrifaðir grunnskólanemar fyrir. Hann hafi þráð að hefja nám í húsasmíði, en af því að það hafi ekki verið rúm fyrir hann í náminu hafi hann snúið sér að bóknámi þar sem ekki færri en fjórir skólar buðust til að kenna honum viðskiptafræði.

„Ég heyri ekki af þessum vanda á hinum Norðurlöndunum,“ segir Hildur og kallar eftir plani og spyr hvort við sem þjóð ætlum að standa í sömu sporum árið 2030, en það þurfi að horfa á menntakerfið heildrænt.

„Í þessu efni finn ég til með unga fólkinu sem á að baki brotinn feril og þráir iðnnám, en fær þar ekki inni sakir þess að vera of gamalt. Möguleikarnir eru slegnir úr höndum þess í stað þess að menntakerfið taki því opnum örmum,“ segir Hildur.

Vandinn liggi í fjármagni
Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, segir vandann í þessum efnum vera þann að fjármagn fylgi ekki aukinni spurn eftir iðnnámi.

„Við fórum í átak fyrir nokkrum árum til að bæta ímynd starfs- og tæknináms sem tókst gríðarlega vel,“ segir Árni og minnir á að ásóknin í það hafi aukist hraðar en nokkur maður hafi átt von á.

„En við erum ekki úrkula vonar eftir samtöl okkar við stjórnvöld,“ heldur hann áfram og metur það svo að þar sé metnaður til að gera betur. „Miðað við þau samskipti sem við höfum átt við menntamálayfirvöld erum við bjartsýn á að efndir fylgi orðum,“ segir Árni og minnir jafnframt á að viljayfirlýsing liggi fyrir þess efnis að byggja eigi nýjan og stærri Tækniskóla í Hafnarfirði, sem eigi að geta lagað sig að aðstæðum hvað nemendafjölda og mannaflaþörf í iðnaði varðar í framtíðinni.

Heimild: Frettabladid.is