Mikil óánægja er meðal frístundahúsaeigenda í nágrenni Seyðishóla í Grímsnesi vegna áforma um aukna töku gjalls, en fjöldi skipulagðra frístundabyggða er í nágrenninu.
Suðurtak ehf. hefur lagt fram matsáætlun til Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats efnistöku í Seyðishólum eins og greint var frá í Morgunblaðinu nýlega.
Guðrún Njálsdóttir, sem sæti á í stjórn Kerhrauns, eins félaga sumarhúsaeigenda í nágrenni við Seyðishólinn, segir að félagið muni senda athugasemdir og mótmæli til Skipulagsstofnunar varðandi matsáætlunina og fleiri félög frístundahúsaeigenda munu gera það líka. Um eða yfir 400 frístundalóðir/sumarhús séu í nágrenni við Seyðishólinn.
Ónæði, álag og mengun
Hún bendir á að í matsáætluninni felist að heimilt verði að flytja úr námunum 500 þúsund rúmmetra á næstu 15 árum.
Á síðustu rúmlega 70 árum hafi hins vegar verið teknir þar samtals 450 þúsund rúmmetrar. Verið sé að ræða um að heimila mikla aukningu auk stækkunar á námunni, sem Guðrún hefur áhyggjur af og segist óttast að farið verði offari í efnistökunni.
„Við félagsmenn í Kerhrauni viljum ekki að landinu sé mokað burt og hóllinn hverfi. Hann er eitt merkilegasta kennileiti Grímsnessins og því algjörlega óviðunandi að raska hólnum meira en orðið er,“ segir Guðrún.
Hún spyr hvort það sé eðlilegt að leyfa miklar og óafturkræfar framkvæmdir á sama tíma og talað sé um að vernda náttúruna. Nú þegar sé námuopið orðið mikið gímald og til standi að stækka vinnusvæðið sem verði til þess að sjónræn áhrif verði óafturkræf.
Heimild: Mbl.is