Home Fréttir Í fréttum „Viljum ekki að landinu sé mokað burt“

„Viljum ekki að landinu sé mokað burt“

168
0
Unnið að gjalltöku á einu svæðanna fyrir nokkrum árum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mik­il óánægja er meðal frí­stunda­húsa­eig­enda í ná­grenni Seyðis­hóla í Gríms­nesi vegna áforma um aukna töku gjalls, en fjöldi skipu­lagðra frí­stunda­byggða er í ná­grenn­inu.

<>

Suður­tak ehf. hef­ur lagt fram matsáætl­un til Skipu­lags­stofn­un­ar vegna um­hverf­is­mats efnis­töku í Seyðis­hól­um eins og greint var frá í Morg­un­blaðinu ný­lega.

Guðrún Njáls­dótt­ir, sem sæti á í stjórn Ker­hrauns, eins fé­laga sum­ar­húsa­eig­enda í ná­grenni við Seyðis­hól­inn, seg­ir að fé­lagið muni senda at­huga­semd­ir og mót­mæli til Skipu­lags­stofn­un­ar varðandi matsáætl­un­ina og fleiri fé­lög frí­stunda­húsa­eig­enda munu gera það líka. Um eða yfir 400 frí­stundalóðir/​sum­ar­hús séu í ná­grenni við Seyðis­hól­inn.

Ónæði, álag og meng­un
Hún bend­ir á að í matsáætl­un­inni fel­ist að heim­ilt verði að flytja úr námun­um 500 þúsund rúm­metra á næstu 15 árum.

Á síðustu rúm­lega 70 árum hafi hins veg­ar verið tekn­ir þar sam­tals 450 þúsund rúm­metr­ar. Verið sé að ræða um að heim­ila mikla aukn­ingu auk stækk­un­ar á námunni, sem Guðrún hef­ur áhyggj­ur af og seg­ist ótt­ast að farið verði offari í efnis­tök­unni.

„Við fé­lags­menn í Ker­hrauni vilj­um ekki að land­inu sé mokað burt og hóll­inn hverfi. Hann er eitt merki­leg­asta kenni­leiti Gríms­ness­ins og því al­gjör­lega óviðun­andi að raska hóln­um meira en orðið er,“ seg­ir Guðrún.

Hún spyr hvort það sé eðli­legt að leyfa mikl­ar og óaft­ur­kræf­ar fram­kvæmd­ir á sama tíma og talað sé um að vernda nátt­úr­una. Nú þegar sé námu­opið orðið mikið gíma­ld og til standi að stækka vinnusvæðið sem verði til þess að sjón­ræn áhrif verði óaft­ur­kræf.

Heimild: Mbl.is