Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir halda áfram við Tryggvagötu

Framkvæmdir halda áfram við Tryggvagötu

495
0
Rauðu línurnar á kortinu sýna afmörkun framkvæmdasvæðisins í þriðja áfanga sem nú er að hefjast.

Framkvæmdir eru hafnar á ný við Tryggvagötu en nú er komið að gatnamótum Grófarinnar að fá nýtt og fallegt yfirbragð.

<>

Um er að ræða þriðja og síðasta verkáfangann í endurgerð Tryggvagötu þar sem endurnýja á lagnir ásamt jarðvegsskiptum og endurnýjun yfirborðs.

Þessar framkvæmdir eru hluti af því að gera borgina betri, mannvænni, fallegri og aðgengilegri fyrir virka ferðamáta.

FYRIR. Bílum var áður lagt upp við Tollhúsið.

Áhersla lögð á gott aðgengi gangandi og hjólandi
Framkvæmdasvæðið takmarkast við Grófina sem heild, við gatnamót Vesturgötu og Tryggvagötu. Með því verður Tryggvagata tímabundið að botngötu bæði með aðkomu frá Geirsgötu og frá Kalkofnsvegi.

Áhersla er lögð á greitt aðgengi gangandi og hjólandi sem verður tryggt með hjáleiðum sem verða vel merktar. Tvö stæði fyrir hreyfihamlaða flytjast til vegna framkvæmdanna og verða fyrir aftan Listasafn Reykjavíkur.

Einnig eru þrjú stæði fyrir hreyfihamlaða þar sem framkvæmdum er lokið í Tryggvagötu. Áætlað er að framkvæmdum í Grófinni ljúki fyrripart sumars.

EFTIR. Þó torgið hafi ekki tekið á sig lokamynd er greinilegt að umhverfið er gerbreytt. Nú er meira pláss fyrir fólk og listaverk Gerðar Helgadóttur nýtur sín betur.

Gjörbreytt götumynd og aðlaðandi borgarbragur
Gestir og gangandi hafa eflaust tekið eftir gjörbreyttri götumynd Tryggvagötu. Nú síðast var gatan endurnýjuð við Tollhúsið en komið er steypt torg við mósaíklistaverk Gerðar Helgadóttur sem mun njóta sín vel í sumar sem nýtt almenningsrými og samastaður.

Enn er einhver frágangur eftir eins og að bæta við bekkjum og setja upp skemmtilegan þokuskúlptúr sem býður upp á leik.

Lífleg og fjölbreytileg almenningsrými og aðlaðandi borgarbragur eru leiðarljós við þessa framkvæmdir, enda meginmarkmið Aðalskipulags Reykjavíkur. Enn fremur er lögð áhersla á gott aðgengi á framkvæmdatíma og gagnlega upplýsingagjöf til hagsmunaaðila í þessari sameiginlegu framkvæmd Reykjavíkurborgar og Veitna.

Tenglar

Skoða meira um endurgerð Tryggvagötu.

Skoða framkvæmdasvæðið og hjáleiðir.

Heimild: Reykjavik.is