Bygging aðstöðu fyrir afgreiðslu ríkisborgara frá löndum utan Schengen-svæðisins á Keflavíkurflugvelli miðar vel. Um er að ræða viðbyggingu, svonefnt Stæði 6, í suðurenda flugstöðvarinnar.
Fyrri áætlun gerði ráð fyrir að aðildarríki Schengen-samningsins tækju miðlægt afgreiðslukerfi fyrir brottfarar- og komufarþega frá löndum utan samningsins í notkun nú í vor en fyrr í vetur var því frestað til loka september. Hægt var á framkvæmdum við Stæði 6 af þessum sökum.
Miðlæga kerfið sem kveðið er á um í Evrópureglugerð er ekki tilbúið og á eftir að koma í ljós hvort svo verði í september komandi. Á Keflavíkurflugvelli er hinsvegar ekkert sem kemur í veg fyrir að taka upp þennan nýja afgreiðslumáta þegar sjálft kerfið er til reiðu.
Öruggara kerfi
Í væntanlegu afgreiðslukerfi þarf að skrá ferðir farþega til og frá landinu með nýjum hætti. Halda þarf utan um synjanir um komu ríkisborgara frá löndum utan Schengen-svæðisins og ákveða skilyrði fyrir afgreiðslu í gegnum komu- og brottfararkerfið út frá sjónarmiðum löggæslu.
Í nýju miðlægu kerfi verður haldið utan um komur, brottfarir og dvalartíma íbúa utan Schengen-svæðisins. Öllum skráningum eiga að fylgja fingraför og mynd en ekki þarf þá lengur að stimpla vegabréf. Markmiðið er að bæta landamæraeftirlit.
Færanleg bygging
Innan Schengen-svæðisins eru 26 lönd, sem fellt hafa á brott innra vegabréfaeftirlit og fylgja sameiginlegum reglum um vegabréf og afgreiðslu komu- og brottfararfaþega annarra landa.
Í umræddri viðbót við suðurbyggingu flugstöðvarinnar verður þessu eftirliti sinnt á næstu árum eða þar til lokið er stækkun núverandi aðalbyggingar. Þá flyst þessi afgreiðsla flugfarþega utan Schengen-svæðisins þangað. Í framhaldi af því verður að taka viðbygginguna niður og nýta annars staðar.
Heimild: Isavia.is