Home Fréttir Í fréttum „Slegist“ um að byggja á Húsavík

„Slegist“ um að byggja á Húsavík

173
0
Trésmiðjan Rein er með marga anga úti um þessar mundir. Klæðningameistarar fyrirtækisins hafa verið að gefa þessu fallega húsi, Brimnesi á Húsavík nýtt og betra útlit. Myndin tengist þó ekki fréttinni beint. Mynd/Heiddi Gutta.

Óhætt er að segja að verulegur kippur sé kominn í byggingaframkvæmdir á Húsavík miðað við fundardagskrá Skipulags og framkvæmdaráðs Norðurþings sem fram fór í dag.

<>

Ráðið fékk til kynningar niðurstöður á útboði í nýtt húsnæði fyrir frístund barna. Tilboð voru opnuð á föstudag í síðustu viku í hönnun og uppsetningu á færanlegum stofum sem koma til með að hýsa frístund Borgarhólsskóla á Húsavík ásamt tilheyrandi stoðrýmum.

Áætlað er húsnæðið geti rúmað allt að 70 börn í 1.-5. bekk og 20 börn í 6. -10. bekk. Heildarstærð húsnæðisins verður allt að 270 fermetrar og eru verklok áætluð 15. ágúst nk.

Tveir aðilar sendu inn tilboð, annars vegar Terra ehf. sem bauð rétt tæpar 118 milljónir og hins vegar Snorri ehf. sem sendi inn fjögur mismunandi tilboð á bilinu 143 – 148 milljónir króna.

Benóný Valur Jakobsson, formaður skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings sagði í samtali við Vikublaðið að verið væri að yfirfara tilboðin og tekin yrði ákvörðun út frá því.

Ljóst er að öll tilboðin eru yfir kostnaðaráætlun sem hljóðar upp á 108 milljónir króna. „Við vorum búin að gefa okkur ákveðið svigrúm varðandi kostnaðaráætlun, það ætti því ekki að trufla ef tilboðin uppfylla það sem var beðið um,“ segir Benóný og bætti við að framkvæmdir hefjist fljótlega í kjölfar þess að samið verði við verktaka.

„Enda á húsið að standa klárt 15. ágúst,“ segir hann.

Ráðið mun fjalla áfram um málið á næsta fundi sínum og vísar málinu til kynningar í fjölskylduráði.

Þá tók ráðið fyrri erindi frá Hvalasafninu á Húsavík sem óskar eftir því að byggingarreitur á Hafnarstétt 1 verði settur inn í deiliskipulag miðhafnarsvæðis Húsavíkurhafnar til samræmis við áður gildandi deiliskipulag.

Með erindi fylgdu teikningar af hugmyndum að breyttu skipulagi flóttaleiða úr húsinu sem m.a. gera ráð fyrir stigahúsi norðanvert á húsinu.

Skipulags- og framkvæmdaráð tók jákvætt í erindið.

Þá hefur Golfklúbbur Húsavíkur óskað eftir lóð við Katlavöll þar sem fyrirhugað er að byggja nýjan golfskála. Ráðið samþykkti að úthluta GH lóðinni.

Bitist um sömu lóðina
Mesta athygli vekur þó að fjórir aðilar hafa sótt um sömu byggingarlóðina. Það er lóðin að Lyngholti 42-52. Þetta eru fyrirtækin; Trésmiðjan Rein ehf., Árbær ehf., Belkod ehf. og Dimmuborgir ehf. Benóný Valur segir að það sé vissulega óvenjulegt að svo margir aðilar sæki um sömu lóðina en jafnframt afar ánægjulegt að kippur sé kominn í byggingaframkvæmdir í sveitarfélaginu.

Þrír þessara aðila eru með svipuð áform um að byggja raðhús með 6 íbúðum að stærð 70-80 fermetra. Áformin ganga út á að steypa plötu komandi sumar og hefja byggingaframkvæmdir eftir áramótin með það að markmiði að koma íbúðunum í sölu haustið 2023.

Árbær ehf. sker sig úr en það fyrirtæki áformar að byggja mun stærri íbúðir og afhenda þær í sölu í september á þessu ári.

„Gögn sem við óskuðum eftir frá þessum aðilum bárust okkur það seint að ráðið hafði ekki tíma til að kynna sér málið til hlítar fyrir fundinn í dag og því var afgreiðslu umsóknanna frestað,“ sagði Benóný.

Benóný segir jafnframt að þessi áhugi sé til marks um það að betra jafnvægi sé að komast á húsnæðismarkaðinn á Húsavík hvað varðar byggingakostnað og íbúðaverð.

Heimild: Vikudagur.is