Home Fréttir Í fréttum Reitir kaupa fasteignir fyrir átján milljarða

Reitir kaupa fasteignir fyrir átján milljarða

83
0

Reitir fasteignafélag hefur ákveðið að ganga til samninga við eigendur fasteignasjóðanna SRE I slhf. og SRE II slhf. sem eru í rekstri sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis, dótturfélags Arion banka, um kaup á tilteknum fasteignafélögum fyrir tæplega átján milljarða króna. Kaup Reita, sem er stærsta fasteignafélag landsins, verða að fullu fjármögnuð með lánsfé og yfirtöku áhvílandi skulda.

<>

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands rétt í þessu en þar segir að um sé að ræða tæplega 37.500 fermetra af vönduðu húsnæði ásamt byggingarrétti. Þessar fasteignir eru Hótel Borg, Borgartún 37, Guðrúnartún 10, Þingvallarstræti 23 á Akureyri, Laugavegur 77, Fiskislóð 11, Skúlagata 17, Síðumúli 16-18 og Faxafen 5. Allt að 6 þúsund fermetra byggingaréttur fylgir Borgartúni 37.

Eignirnar eru í útleigu til um 20 aðila með um 99% útleiguhlutfall en helstu leigutakar eru KEA hótel, Advania , Nýherji, Icelandair hótel, Geymslur og Fastus. Leigutekjur á ársgrunni nema um 1.360 milljónum og er meðaltími leigusamninga um 12 ár. Leiða kaupin til þess að áætlaður rekstrarhagnaður (NOI) Reita hækkar um 1.125 milljónir króna á ársgrundvelli.

Eignasafn Reita stækkar um 9%

Afhending eignanna mun fara fram þegar fyrirvörum vegna viðskiptanna hefur verið aflétt en fyrirvarar eru gerðir um samþykki hluthafafunda seljenda, niðurstöður áreiðanleikakannana, samþykki Samkeppniseftirlitsins og endanlega fjármögnun Reita fyrir kaupunum. Fyrir liggur tilboð um fjármögnun frá Arion banka háð fyrirvara en fyrirtækjaráðgjöf bankans var jafnframt ráðgjafi Reita vegna viðskiptanna.

Í tilkynningu er haft eftir Guðjóni Auðunssyni, forstjóra Reita: „Kaupin falla vel að eignasafni félagsins og fjárfestingarstefnu þess, samræmast vel þeim markmiðum sem félagið hefur sett sér varðandi fjármagnsskipan til framtíðar og arðsemi. Með kaupunum stækkar eignasafn Reita um 9% í fermetrum talið, bókfært virði eignasafnsins eykst um 17% og áætlaður rekstrarhagnaður um 18%. Um er að ræða fasteignasafn með samvali öflugra leigutaka sem við hjá Reitum hlökkum til samstarfs við.“

Heimild: Dv.is