Arkio hefur verið í þróun í fjögur ár. Hilmar Gunnarsson stofnandi hefur fjármagnað alla þróun forritsins sjálfur.
Sprotafyrirtækið Arkio hefur þróað sýndarheim þar sem hægt er að hanna byggingar og fleira í rauntíma í samvinnu við aðra. Hugbúnaðurinn hefur verið í þróun í fjögur ár og verður gefinn út formlega á næstu vikum. Prufuútgáfa forritsins er þegar komin með þúsundir notenda.
Hilmar Gunnarsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Arkio, hefur hingað til fjármagnað alla starfsemi félagsins persónulega og því hafa engir fjárfestar komið að því. Átta manna teymi hefur unnið að þróun forritsins í töluverðan tíma, sem hefur kostað sitt. „Þetta er ekki búið að vera ódýrt, getum við sagt.“
Vonast til að verða sjálfbær innan þriggja ára
Eftir að forritið fer í sölu gæti þó farið að verða tímabært að fá fjárfesta að borðinu, og eru viðræður þess efnis þegar komnar í gang. „Ég vildi byrja á að sýna fram á að tæknin virkaði og fólk sæi notagildi í þessu og hefði áhuga.
Nú þegar það hefur verið gert förum við að huga að næstu skrefum og hyggjumst stækka og sækja inn á markaðinn að krafti,“ segir Hilmar, sem vonast til að reksturinn verði sjálfbær eftir tvö til þrjú ár.
Með Arkio geta hönnuðir og viðskiptavinir að sögn Hilmars nú í fyrsta sinn áttað sig fullkomlega á því hvernig bygging eða rými mun virka á frumstigi hönnunar. „Fólk getur unnið saman innan forritsins við það að skapa nýjar byggingar, nýtt deiliskipulag, jafnvel innanhússhönnun.
Hugmyndin kviknaði þannig að ég hef sjálfur verið að teikna upp hús sem ég hef verið að taka í gegn, og sannfærðist um að það væri betri leið til að gera það en með þeim hönnunartólum sem voru til á þeim tíma.“
Í dag fer hönnun arkitekta að mestu leyti þannig fram að þeir horfa á tvívíða skjái og ímynda sér hvernig byggingin verður þegar búið er að byggja hana. „Viðskiptavinir gera það sama, horfa á myndir á skjáum eða teikningar, og eiga oft erfitt með að átta sig á hvernig lokaniðurstaðan verður.
Okkar von er sú að þetta muni gera hönnuðum og viðskiptavinum kleift að vinna sig hraðar í gengum hönnunarferlið, og afstýra allskyns misskilningi og mistökum sem oft koma upp í ferlinu. Fólk heldur að það sé að tala um hlutina eins, en það er bara erfitt að átta sig á hvernig þrívíddarteikningar munu verða í raunveruleikanum.“
Heimild: Vb.is