Home Fréttir Í fréttum Malbikun hringvegarins lýkur ekki á næstu árum

Malbikun hringvegarins lýkur ekki á næstu árum

134
0

Þrjátíu og þrír kílómetrar hringvegarins eru ennþá malarkaflar. Unnt verður að aka hring um Ísland á malbiki eftir þrjú ár, ef áform Vegagerðarinnar ná fram að ganga um að endurbyggja þjóðveginn um Berufjarðarbotn. Sjálfur hringvegurinn um Breiðdalsheiði mun þó vart klárast þennan áratuginn.

<>

Tveir kaflar á hringveginum eru enn ómalbikaðir, báðir á Suðausturlandi, annar í botni Berufjarðar en hinn milli Skriðdals og Breiðdals um Breiðdalsheiði. Þar er lengsti malarkafli hringvegarins, 25 kílómetra langur, en malarkaflinn í Berufirði er 8 kílómetra langur.

Í vor tókst að leysa langvarandi deilur heima í héraði um hvar vegurinn eigi að liggja um Berufjarðarbotn og hafa landeigendur nú sameinast um eina veglínu sem Djúpavogshreppur hefur fallist á. Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps, segir verkið inni á fjögurra ára samgönguáætlun og gert ráð fyrir fjármunum þegar á næsta ári.

„Þanng að ég sannarlega vona það að þetta skipulagsferli, sem nú er í gangi, geti gengið hnökralaust fyrir sig,“ segir Andrés. Skipulagstillagan gerir ráð fyrir að nýr vegur í Berufirði verði lagður yfir leirur innst í firðinum við Staðareyri og vonast oddvitinn til að vegagerðin hefjist á næsta ári.

„Þannig að það verði hægt að fara í útboð strax á næsta ári vegna þess að þetta er algert ófremdarástand á þessum vegarkafla enda er hann mikið ekinn.“

Stytting um þrjá og hálfan kílómetra fæst með þessari nýju veglínu. Oddvitinn telur ljóst að hún verði dýrari en framlög geri ráð fyrir. Djúp leirlög séu jafnframt áskorun.

„Við vonum bara að Vegagerðin ráði fram úr því og þetta verði klárað á sem skemmstum tíma og mögulega hægt er. Vegna þess að þetta er algerlega óviðunandi fyrir alla að hafa veginn með þessum hætti,“ segir Andrés.

Langþráður áfangi næst þegar verkinu lýkur; unnt verður að komast hring um Ísland á samfelldu malbiki, – þó með því að fara út af hringveginum á kafla og þræða austfirsku firðina.

Það eru hins vegar engar fjárveitingar fyrirsjáanlegar til að ljúka uppbyggingu hins eiginlega hringvegar, þjóðvegar númer 1 um Breiðdalsheiði. Í tillögu að samgönguáætlun, sem innanríkisráðherra lagði fyrir Alþingi í vor, er aðeins gert ráð fyrir fjármunum í Berufjarðarbotn og efsta hluta Skriðdals til ársins 2019 en engu í hringveginn um Breiðdalsheiði.

Heimild: Vísir.is