Ráð er fyrir gert að framkvæmdir við þverun Þorskafjarðar hefjist í mars eða apríl. Vestfjarðavegur tengir sunnanverða Vestfirði við aðra landshluta en áætlað er að verkið taki um þrjú ár.
Fergja þarf botn Þorskafjarðar sem er tímafrekt viðfangsefni.
Á vef Vegagerðarinnar segir að verkið sé eitt það viðamesta sem ráðist verður i á þessu ári og snýr að lagningu nýs 2,7 kílómetra kafla Vestfjarðavegar við austanverðan Þorskafjörð og lagningu 260 metra langrar brúar.
Vegurinn verður lagður á nýju vegstæði en tengist núverandi Vestfjarðavegi í báða enda. Suðurverk átti lægsta tilboðið í verkið sem nam rétt ríflega tveimur milljörðum króna.
Framkvæmdir hefjast eftir undirritun samnings við verktakann, útlagningu vegfyllinga verði lokið í júní og brúarsmíðinni verði lokið í september á næsta ári.
Áætlað er að öllu verkinu verði lokið í júní 2024.
Heimild: Ruv.is