Home Fréttir Í fréttum Byggja hátt í 800 íbúðir á Héðinsreit og í Gufunesi

Byggja hátt í 800 íbúðir á Héðinsreit og í Gufunesi

440
0
Skjáskot af Ruv.is
Framkvæmdir við byggingu 330 íbúða á Héðinsreitnum í Vesturbæ Reykjavíkur eru hafnar. Framkvæmdastjóri Spildu ehf. sem stendur að hluta verkefnisins segir að nú sé mun auðveldara að fjármagna slík verkefni en fyrir ári síðan. Sama félag hyggst byggja 600 til 700 íbúðir í Gufunesi á næstu fimm árum.

Byggja þarf þrjú þúsund íbúðir á ári til þess að sinna húsnæðisþörf landsmanna. Þetta kom fram á Húsnæðisþingi sem haldið var í vikunni. Þá kom fram að framboð á íbúðum til sölu hefði dregist saman um rúmlega helming á höfuðborgarsvæðinu síðan í vor.

<>

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg er búið að samþykkja deiliskipulag fyrir 5.000 íbúðir í borginni – og í fyrra hófst bygging á 1.174 íbúðum í borgarlandinu. Einn þeirra staða sem framkvæmdir eru hafnar á er Héðinsreiturinn í Vesturbænum.

Hentar fjölbreyttum hópi

„Hér erum við að hefja uppbyggingu á 102 íbúðum. Mjög spennandi verkefni,“ segir Anna Sigríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri og eigandi fasteignaþróunarfélagsins Spildu ehf. sem stendur að framkvæmdinni. „Þetta eru smærri íbúðir og við erum að stíla inn á meðalstærð undir 70 fermetrum.

Íbúðir sem eiga að henta mjög fjölbreyttum hópi fólks, hvort sem það er ungt fólk sem er að koma sér inn á markaðinn eða fólk sem er að minnka við sig.“

Anna Sigríður segist eiga von á mikilli eftirspurn eftir þessari tegund íbúða á þessum stað. Stefnt er að því að setja íbúðirnar í sölu um mitt næsta ár. Á lóðinni við hliðina er svo fasteignaþróunarfélagið Festir að undirbúa byggingu 228 íbúða og því stefnir í að alls 330 íbúðir verði á Héðinsreit innan fárra ára, auk atvinnu- og þjónusturýma.

„Á sama tíma erum við farin af stað með annað verkefni sem eru 6-700 íbúðir sem við erum að byggja á næstu fimm árum uppi í Gufunesi, rétt við Áburðarverksmiðjuna. Og ráðgerum að fyrsti áfangi fari í sölu þar á sama tíma,“ segir Anna Sigríður.

Margt hjálpar til

Kostnaður við verkefnin tvö hleypur á tugum milljarða. Anna Sigríður segir að fjármögnun verkefnis af þessu tagi gangi betur nú en fyrir ári.

„Já það er akkúrat málið og ég held að þessi íbúðaskortur stafi meðal annars af því að 2019 og framan af ári 2020 voru fjármálastofnanir algjörlega lokaðar á framkvæmdafjármögnun. Þegar byrjar að liðkast til um það byrjar að opnast tækifæri fyrir aðila eins og okkur til þess að fjármagna verkefni sem við erum búin að vera með í pípunum.

Þetta verkefni er búið að vera í pípunum í nokkur ár,“ segir Anna Sigríður. „Og það hjálpar margt til. Það er lágt vaxtastig í landinu, það er mikil kaupgeta og hlutdeildarlán sem eru að hjálpa fólki sem er að koma inn á kaupendamarkað. Þannig að það er margt sem spilar vel saman núna.“

Heimild: Ruv.is