41 fyrirtæki, sem skráð voru í fyrirtækjaskrá Skattsins, voru tekin til gjaldþrotaskipta í september síðastliðnum. 28 þeirra voru með virkni árið 2019, það er annaðhvort með launþega samkvæmt staðgreiðsluskrá eða veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum.
Þetta kemur fram í tilraunatölfræði Hagstofunnar.
Nýskráningar einkahlutafélaga í septembermánuði voru 266 og fjölgaði um 115% frá september 2019.
„Á þriðja ársfjórðungi, eða frá júlí til september, voru 95 fyrirtæki lýst gjaldþrota. Af þeim voru 58 virk á fyrra ári sem er 5% fleiri en fyrir þriðja ársfjórðung 2019. Þar af voru 18 í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, 6 í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum, 16 í einkennandi greinum ferðaþjónustu og 18 í öðrum atvinnugreinum,“ segir í tilkynningu um málið á vef Hagstofunnar.
„Fyrirtæki sem urðu gjaldþrota á þriðja ársfjórðungi voru með um 500 launþega að jafnaði árið 2019, þar af voru um 130 launþegar á fyrra ári í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og um 190 í einkennandi greinum ferðaþjónustu.
Fyrir fyrirtæki í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð er þetta 70% aukning frá sama ársfjórðungi 2019 og 35% aukning á fyrri meðalfjölda launþega fyrirtækja í einkennandi greinum ferðaþjónustu.
Meðalfjöldi launþega á fyrra ári hjá fyrirtækjum í heild- og smásöluverslun sem lýstu yfir gjaldþroti á þriðja ársfjórðungi var hinsvegar einungis 11, sem er 85% minna en fyrir þriðja ársfjórðung 2019.“
Heimild: Mbl.is