Knútur og Helena, tómatbændur í Friðheimum standa nú í ströngu við að koma upp 5600 fermetra gróðurhúsi.
Með því tvöfalda þau húsakost sinn og framleiðslugetuna. Á næstu lóð, hjá gúrkubændunum Helga og Hildi í Gufuhlíð, er rúmlega 2000 fermetra gróðurhús langt komið.
Þá eru blómabændurnir Axel og Heiða á Espiflöt að byggja rúmlega 1000 fermetra hús þar sem ræktaðar verða rósir til að svara aukinni eftirspurn.
Og það er ekki bara verið að stækka gróðurhús á svæðinu. Undanfarið hafa verið byggðir tólf sumarbústaðir sem eru leigðir út og á næstu vikum hefjast framkvæmdir við að byggja fjörutíu herbergja hótel.
Átti ekki von á framkvæmdum í covidfári
„Þetta er bara mjög ánægjulegt, og eitthvað sem maður átti kannski ekki von á í covidfárinu hérna í vor, að hér yrði farið að byggja hótel í ágúst og allar þessar garðyrkjustöðvar að stækka.
En þetta er bara frábært og sýnir að það er bjartsýni í ferðaþjónustunni og að hér láta menn verkin tala,“ segir Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri í Blóskógabyggð.
„Það er búið að framkvæma hér fyrir einhverja milljarða á síðustu tveimur, þremur árum sko. Þannig að við erum bjartsýn og horfum björtum augum til framtíðar,“ segir hún.
Gott samstarf og vinasambönd
Þótt ótrúlegt megi virðast voru ekki samantekin ráð að ráðast í framkvæmdirnar á sama tíma. Það hefur þó sína kosti að sögn Axels Snædal, blómabónda á Espiflöt.
„Það er ekki slæmt að eiga góða granna og við erum hérna þrjú fyrirtæki, eða þrjár fjölskyldur sem erum bara að stækka alveg helling, og er allt á sama horninu í rauninni. Erum að stækka um nokkur þúsund fermetra samtals.
Við tölum mikið saman og eigum mjög gott bæði samstarf og vinasambönd. Og ef eitthvað erum við alltaf tilbúin að hjálpa til, ef eitthvað kemur upp,“ segir Axel.
Heimild: Ruv.is