Þann 29. júní sl. samþykkti Alþingi að veita hafnasjóði Vesturbyggðar 129 millj. kr. framlag á árinu 2020 til landfyllingar á Bíldudal og tók bæjarráð Vesturbyggðar fyrir viðauka við fjárhagsáætlun Vesturbyggðar 2020 á síðasta fundi ráðsins 14. júlí sl.
Gert er ráð fyrir að hafist verið handa við landfyllinguna í haust og verklok áætluð á næsta ári.
Með landfyllingunni eykst athafnarsvæði við Bíldudalshöfn til muna. Þá standa nú yfir framkvæmdir við Bíldudalshöfn þar sem verið er að tengja stórskipa- og hafskipakant hafnarinnar og endurbyggja hafskipabryggju.
Á fundi bæjarráðs 14. júlí sl. var lögð fram greining Vestfjarðastofu um Nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar á Vestfjörðum.
Þar er gerð grein fyrir nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvum á Patreksfirði og Bíldudal. Vesturbyggð hefur undirbúið frekari eflingu þeirrar starfsemi bæði á Patreksfirði og Bíldudal í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir.
Samkvæmt fjárhagsáætlun 2020 er gert ráð fyrir framkvæmdum við Vatneyrabúð við Aðalstræti 1, á Patreksfirði og munu framkvæmdir við húsnæðið hefjast nú á haustmánuðum með það fyrir augum að undirbúa húsnæðis svo unnt sé að koma safnamunum húsnæðisins þangað inn að nýju og gera sögu hússins skil.
Samhliða því verður unnið að því að flytja starfsemi Skorar í húsnæðið, en þann 29. júní sl. var úthlutað 3 millj. kr. styrk til eflingar nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar á Patreksfirði.
Þá hefur Vesturbyggð í samvinnu við Skrímslasetrið á Bíldudal unnið að frekari eflingu og uppbyggingu nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar að Strandgötu 7 á Bíldudal. Þar er stefnt að því að efla m.a. bókasafn Bílddælinga, félagsstarf aldraðra, uppbyggingu starfsaðstöðu fyrir störf án staðsetningar og fleira.
Þann 29. júní sl. var úthlutað 3 millj. kr. styrk til eflingar nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar á Bíldudal.
Þann 30. júní sl. tilkynnti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að Vesturbyggð hafi verið veitt 32% stofnframlag ríkisins til byggingu fjögurra íbúða á Bíldudal, en samtals nemur stofnframlagið tæpum 36 millj. kr. sem skiptist í 18% stofnframlag 20,3 millj. kr. og 14% sérstakt byggðaframlag 15,7 millj. kr.
Vesturbyggð er í samstarfi við Nýjatún ehf. um byggingu þeirra fjögurra íbúða sem um ræðir og er ráðgert að íbúðirnar muni rísa við Lönguhlíð á Bíldudal, en félagið áætlar að byggja allt að 10-12 íbúðir á Bíldudal.
Með byggingu þessara íbúða verður hluta af þeirri miklu þörf fyrir íbúðarhúsnæði mætt, en samkvæmt nýsamþykktri húsnæðisáætlun Vesturbyggðar 2020-2028 er áætlað að þörf fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu sé um 10-15 íbúðir á ári, gangi mannfjöldaspá eftir.
Það er von Vesturbyggðar að þessi úthlutun stofnframlaga verði fyrsta skrefið í að fjölga íbúðum og nýbyggingum innan sveitarfélagsins.
Heimild: BB.is