Home Fréttir Í fréttum Jarðvinna á lóð spít­al­ans á loka­stigi

Jarðvinna á lóð spít­al­ans á loka­stigi

172
0
Sprengi­efni komið fyr­ir. Vinna við grunn nýs meðferðar­kjarna er langt kom­in. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Fram­kvæmd­irn­ar við Hring­braut sem standa yfir vegna bygg­ing­ar nýs Land­spít­ala ganga vel og er vinnu við grunn nýs meðferðar­kjarna nán­ast lokið.

<>

Gunn­ar Svavars­son, fram­kvæmda­stjóri Nýs Land­spít­ala ohf. (NLSH), seg­ir að jarðvinnu­verk­efn­inu við meðferðar­kjarn­ann og gatna­gerð á svæðinu ljúki í næsta mánuði.

„Íslensk­ir aðal­verk­tak­ar vinna það verk­efni og þeir munu klára það núna í maí. Þá verður til­bú­inn grunn­ur­inn fyr­ir meðferðar­kjarn­ann og bíla­kjall­ar­ann auk þess sem allri gatna­gerð og vinnu við bíla­stæði og fleira á svæðinu er lokið,“ seg­ir hann.

Stór útboð standa fyr­ir dyr­um
Að sögn hans verður von­andi mjög fljót­lega ráðist í lokað útboð á upp­steypu meðferðar­kjarn­ans. For­vali vegna upp­steyp­unn­ar lauk í vet­ur og seg­ir Gunn­ar að fimm verk­tak­ar bíði þess nú að fá útboðsgögn­in í hend­ur og leggi því næst fram til­boð.

„Þetta verk­efni stend­ur yfir í tvö og hálft ár og felst í upp­steypu og síðan tek­ur inni­vinn­an við, þannig að gert er ráð fyr­ir að vinnu við meðferðar­kjarn­ann ljúki á ár­inu 2025, ef vel geng­ur,“ seg­ir hann.

Útboð fleiri stórra verkþátta standa fyr­ir dyr­um og fram­kvæmd­ir verða í full­um gangi í vor og sum­ar. Unnið er að hönn­un rann­sókn­ar­húss­ins og að sögn Gunn­ars stend­ur nú yfir markaðskönn­un hjá Rík­is­kaup­um sem aðdrag­andi að al­út­boði vegna bíla­stæða-, tækni- og skrif­stofu­húss, að því er fram kem­ur í Morg­un­blaðinu í dag.

Heimild: Mbl.is