Framkvæmdirnar við Hringbraut sem standa yfir vegna byggingar nýs Landspítala ganga vel og er vinnu við grunn nýs meðferðarkjarna nánast lokið.
Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf. (NLSH), segir að jarðvinnuverkefninu við meðferðarkjarnann og gatnagerð á svæðinu ljúki í næsta mánuði.
„Íslenskir aðalverktakar vinna það verkefni og þeir munu klára það núna í maí. Þá verður tilbúinn grunnurinn fyrir meðferðarkjarnann og bílakjallarann auk þess sem allri gatnagerð og vinnu við bílastæði og fleira á svæðinu er lokið,“ segir hann.
Stór útboð standa fyrir dyrum
Að sögn hans verður vonandi mjög fljótlega ráðist í lokað útboð á uppsteypu meðferðarkjarnans. Forvali vegna uppsteypunnar lauk í vetur og segir Gunnar að fimm verktakar bíði þess nú að fá útboðsgögnin í hendur og leggi því næst fram tilboð.
„Þetta verkefni stendur yfir í tvö og hálft ár og felst í uppsteypu og síðan tekur innivinnan við, þannig að gert er ráð fyrir að vinnu við meðferðarkjarnann ljúki á árinu 2025, ef vel gengur,“ segir hann.
Útboð fleiri stórra verkþátta standa fyrir dyrum og framkvæmdir verða í fullum gangi í vor og sumar. Unnið er að hönnun rannsóknarhússins og að sögn Gunnars stendur nú yfir markaðskönnun hjá Ríkiskaupum sem aðdragandi að alútboði vegna bílastæða-, tækni- og skrifstofuhúss, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is