Nú er að hefjast jarðvinna vegna viðbyggingar við grunnskóla Húnaþings vestra og er áætlað er að framkvæmdir við hana standi fram á sumar. Á meðan verður svæðið girt af með lausum girðingum.
Unnið verður að fleygun á klöpp á virkum dögum á milli kl. 8:00 og 18:00 og laugardaga milli kl. 10:00 og 16:00. Eru íbúar beðnir að sýna aðgát í kringum vinnusvæðið.
Áætlað er að nýja viðbyggingin verði tekin í notkun haustið 2022. Hún verður staðsett norðan við núverandi skólabyggingu og teygir sig frá vestri og upp með landinu til austurs og er um 1028 m2 að stærð.
Í lýsingu á byggingunni á heimasíðu VA arkitekta segir:
„Að vestanverðu gengur nýbyggingin fram og myndar skjólgott og sólríkt svæði við aðalinngang skólans.
Þar sem byggingin fylgir landinu upp hlíðina til austurs myndast einnig skjólgott útirými að austanverðu.
Byggingin sækir form sitt og hlutföll í núverandi skólabyggingu og umhverfið. Notast er við sama halla á þaki og byggingin er brotin upp með ásum í einingar sem taka upp hlutföll og takt eldri byggingar.
Þakið er mótað þannig að það gengur skemur til suðurs og myndar þar opin rými með aukinni lofthæð og birtu.
Ásar liggja þvert og langt í gegnum bygginguna, tengja saman eldri og nýrri hluta skólans og skapa gott flæði milli allra rýma. Sjónrænar teningar verða einnig til eftir þessum ásum milli ólíkra hluta skólans og sömuleiðis út á lóð.“
Sjá nánar hér.
Heimild: Feykir.is