Embætti héraðssaksóknara hefur ákært annan af tveimur framkvæmdastjórum verktakafyrirtækisins Mannverks vegna niðurrifs á svonefndu Exeter-húsi sem stóð við Tryggvagötu 12.
Húsið var rifið í heild og grunnað, en húsið naut lögbundinnar friðunar vegna aldurs og hafði Minjastofnun Íslands ekki gefið leyfi fyrir niðurrifinu.
Framkvæmdastjórinn, Jónas Már Gunnarsson, var umsjónarmaður dótturfélagsins Mannverks Tryg ehf., sem var byggingarstjóri við niðurrifið.
Húsið var á sameinaðri lóð með Tryggvagötu 14, en Mannverk var svo verktaki við uppbyggingu á reitnum, þar sem nú hafa meðal annars risið hótel og veitingastaðir.
Ákært er fyrir brot á lögum um menningarminjar og lögum um mannvirki. Viðurlög við þeim brotum geta verið sektir eða jafnvel fangelsisdómur.
Í lögum um menningarminjar er einnig vísað til almennra hegningarlaga þar sem heimilað er að dæma í allt að þriggja ára fangelsi hvern þann „sem tekur burtu, ónýtir eða skemmir opinber minnismerki eða hluti, sem ætlaðir eru til almennings nota eða skrauts, eða hluti, sem teljast til opinberra safna eða eru sérstaklega friðaðir.“
Í lögum um mannvirki getur refsiábyrgð vegna brota verið allt að tvö ár, auk þess sem hægt er að svipta byggingarstjóra starfsleyfi sínu.
Heimild: Mbl.is