Home Fréttir Í fréttum Forstjóri Heklu: Borgaryfirvöld á tæpasta vaði

Forstjóri Heklu: Borgaryfirvöld á tæpasta vaði

445
0
Hekla bílaumboð Mynd: Ruv.is

Svo virðist sem fyrirhuguð uppbygging á Heklu-reitnum sé komin í öngstræti og að ekkert verði af fyrirhuguðu deiliskipulagi á reitnum.

<>

Í bréfi sem Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, sendi formanni borgarráðs í síðustu viku segir hann borgaryfirvöld „á tæpasta vaði“ með kröfum sínum.

Samkomulag milli Heklu og borgarinnar hafi verið brotið og borgin beri ábyrgð á því og afleiðingum þess.

Reykjavíkurborg og Hekla skrifuðu fyrir tveimur árum undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu á svokölluðum Heklureit við ofanverðan Laugaveg.

Gert var ráð fyrir að þar risu 320 til 350 íbúðir og var efnt til samkeppni um gerð nýs deiliskipulags. Í staðinn ætlaði borgin að úthluta Heklu lóð í Suður-Mjódd.

En eftir að verðlaunatillagan leit dagsins ljós hefur lítið gerst og nú virðast forsvarsmenn Heklu vera komnir með nóg af biðinni.

Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, segir í bréfi sínu til formanns borgarráðs að þegar komið hafi verið að því að ganga frá deiliskipulagsbreytingunni hafi „þeim skilaboðum verið komið til Heklu að ekki yrði gengið frá deiliskipulagi nema Hekla samþykkti að borgin fengi frekara endurgjald en áður hafði verið samið um.“

Hann segir að borgin hafi viljað fá 300 til 400 milljónir króna í viðbót í formi kaupréttar Félagsbústaða á íbúðum undir markaðsvirði og jafnvel undir kostnaðarverði.

Þá segir Friðbert að borgin hafi sömuleiðis krafið Heklu um að fá hluta lóðarinnar undir samgöngukerfi og það án greiðslu.

Sú krafa sé í beinni andstöðu við það sem fram hafi komið í samskiptum hans við borgina.

Honum hafi verið tjáð að „ef borgin þyrfti að fá land undir borgarlínu þá fengi Hekla það bætt með landi á fyrirhugaðri nýrri byggingarlóð, jafn verðmæta í krónum talið.“

Friðbert segir jafnframt að fyrirtækið hafi reynt að eiga samtal við borgina um kostnað sem fylgi því að breyta og rífa húsnæði í fullum rekstri.

„Hefur tilraun til að eiga samtal við embættismenn borgarinnar engu skilað,“ skrifar forstjórinn.

Telur Friðbert að borgin byggi kröfu sína á þeim sjónarmiðum að hún ráði yfir skipulaginu. Þeir sem gangist ekki undir kröfur hennar um aukalegar greiðslur fái ekki breytingar á skipulagi afgreiddar.

„Verður að telja að borgaryfirvöld séu á tæpasta vaði þegar kröfur um endurgjald eru rökstuddar með fyrrgreindum hætti.“

Friðbert krefur Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, formann borgarráðs, um skýr svör og segir því hafa verið slegið fram af embættismönnum borgarinnar að samþykki Hekla ekki kröfur um aukið endurgjald vegna Heklu-reitsins ætli borgin ekki að standa við loforð um að úthluta lóð til Heklu við Suður-Mjódd.

„Framganga þessi er auðvitað með nokkrum ólíkindum og því mikilvægt að fá afstöðu borgarráðs til þess.“

Friðbert segist ítrekað hafa óskað eftir fundi um þessi mál og send skriflega ósk um fund með formanni borgarráðs.

Þá hafi hann einnig óskað eftir fundi með borgarstjóra en ekkert hafi orðið af fundarhöldum.

Segir hann fyrirtækið reiðubúið að standa að öllu leyti við viljayfirlýsinguna og skorar á Reykjavíkurborg að gera slíkt hið sama.

Verði ekki staðið við gerða samninga beri Reykjavíkurborg ábyrgð á því. Borgin fékk frest til 1. febrúar til að svara bréfinu.

Heimild: Ruv.is