Home Fréttir Í fréttum Varnargarður við Víkurklett vegna Kötlugoss gæti kostað 80 til 110 milljónir

Varnargarður við Víkurklett vegna Kötlugoss gæti kostað 80 til 110 milljónir

147
0
Mynd: Vísir/Vilhelm

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra kynnti hugmyndir um varnargarð við Víkurklett vegna Kötluhlaups á fundi ríkisstjórnar á föstudag. Tillögurnar að slíkum garði eru byggðar á hermun jökulhlaups í Múlakvísl í kjölfar Kötlugoss.

<>

Vakti ráðherra athygli á að skýrslan bendi til þess að mjög fýsilegt sé að byggja varnargarð við Víkurklett, enda geti tiltölulega ódýr varnargarður komið í veg fyrir stórfellt tjón í þéttbýli Víkur komi til Kötluhlaups niður farveg Múlakvíslar.

Heildarkostnaður við varnargarð við Víkurklett er talinn vera á bilinu 80 til 110 milljónir króna.

Eftir er að hanna varnargarð og ákveða staðsetningu í samráði við landeigendur og sveitarfélag sem getur haft áhrif á endanlegan kostnað.

Fer málið nú í frekari vinnslu við viðeigandi ráðuneytum og stofnunum.

Á Kötluráðstefnunni sem haldin var í október síðastliðnum var kynnt mat á áhrifum hamfaraflóðs á Kötlugarð en niðurstöður leiddu í ljós að líkur eru á að slíkt flóð færi yfir og tæki með sér Kötlugarð og útbreiðslan myndi ná til þéttbýlisins við Vík í Mýrdal.

Verkfræðistofan Vatnaskil uppfærði reiknilíkanið enn frekar til að leggja varfærið mat á flóðhæð við Víkurklett, komi til Kötluhlaups af sömu stærðargráðu og árið 1918.

Var stillt upp dæmi af varnargarði sem væri í sjö metra hæð yfir sjávarmáli en vatn fór ekki yfir þann garð samkvæmt reiknilíkaninu.

Varnargarðurinn gæti kostað 80 til 110 milljónir króna. Mynd: Landakort ehf.

Heimild: Visir.is