Ekkert fékkst upp í 206 milljóna króna kröfur í þrotabú Verktaks 15 ehf. áður þekkt sem SS verk ehf. Engar eignir fundust í búinu, en Héraðsdómur Reykjaness dæmdi Sigurð Ragnar Kristinsson, fyrrverandi eiganda, í 20 mánaða skilorðsbundið fangelsi í desember fyrir meiri háttar skattalagabrot í rekstri fyrirtækisins.
Var Sigurði einnig gert að greiða 137 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs. Bar honum að greiða hana innan fjögurra vikna. Greiði hann ekki sektina þarf hann að sæta fangelsisvist í 360 daga.
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði félagið gjaldþrota 25. janúar 2017 og fundust engar eignir í búinu. Skiptum var lokið 21. ágúst síðastliðinn, að því er fram kemur í Lögbirtingarblaðinu.
Sigurður er einnig einn sakborninga í Skáksambandsmálinu sem snýr að innflutningi á um fimm kílóum af amfetamíni til Íslands frá Spáni.
Heimild:Mbl.is