Fjárhagsáætlun Norðurþings fyrir árið 2019 og þriggja ára áætlun til ársins 2022 var samþykkt á sveitarstjórnarfundi á fimmtudaginn. Gert er ráð fyrir 88 milljóna króna afgangi af rekstri A-hluta sveitarfélagsins á næsta ári og að rekstur samstæðunnar verði jákvæður um 142 milljónir króna.
Útsvarshlutfall verður óbreytt á næsta ári, 14,52%, líkt og flest önnur gjöld sveitarfélagsins. Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði verður þó lækkaður úr 0,575% niður í 0,525% til þess að vega á móti hækkun fasteignamats.
Slökkvistöð, hitaveita og gatnagerð
Alls á verja 776 milljónum króna til framkvæmda og fjárfestinga á næsta ári, sem er töluvert meira en næstu þrjú ár á eftir. Stærsta einstaka framkvæmdin er bygging nýrrar slökkvistöðvar á Húsavík, fyrir rúmlega 200 milljónir á næsta ári. Framkvæmdir eru hafnar og er stefnt að því að þeim ljúki í ágúst 2019. Þá eru stórar framkvæmdir í pípunum á vegum Orkuveitu Húsavíkur og ber þar hæst ný hitaveitulögn í Reykjahverfi fyrir 83 milljónir á næsta ári. Verja á 146 milljónum í malbikun og gatnagerð á Húsavík, 15 milljónum í göngustíga og 36 milljónum í viðhald fasteigna. Á næstu þremur árum er gert ráð fyrir 225 milljónum króna til nýbygginga félagslegra íbúða, þar af 25 milljónum á næsta ári.
Ekki verið tekin ákvörðun um SR-lóðina
Af framkvæmdum í öðrum byggðakjörnum má nefna að gert er ráð fyrir 24 milljónum í viðhald fasteigna á Kópaskeri og 30 milljónum í viðhald fasteigna á Raufarhöfn. Þó hefur ekki verið tekin ákvörðun um frágang á svokallaðri SR-lóð á Raufarhöfn, sem er í eigu sveitarfélagsins, líkt og íbúar hafa kallað eftir.
Hafa áhyggjur af þenslu og óhóflegum fjárfestingum
Fulltrúar minnihlutans sátu ýmist hjá eða greiddu atkvæði gegn fjárhagsáætluninni. Í bókun sem þeir lögðu fram á fundinum er áætlunin sögð einkennast af þenslu í rekstri sveitarfélagsins. Tekjustofnar einir og sér standi ekki undir markmiðum meirihlutans og því stefni í aukna skuldasöfnun. „Sambland af þenslu útgjalda, óhóflegum fjárfestingum og framúrkeyrslum,“ eins og það er orðað í bókuninni, leiði til þess að hækka þurfi skatta og þjónustugjöld. Fulltrúar minnihlutans telja því að áætlunin sé síður en svo fjölskylduvæn og lýsa yfir vonbrigðum með að ekki sé dregið úr álögum á íbúa eftir „góð tekjuár“ vegna uppbyggingar stóriðju á Bakka.
Telja að tekjur gætu aukist meira
Í svari meirihlutans kemur fram að tekjuáætlun fyrir næsta ár sé varfærin, í ljósi þess að ekki er fullséð um íbúaþróun og kjarasamninga. Einungis sé gert ráð fyrir 1,5% hækkun útsvarstekna milli ára, en hún gæti orðið meiri. Þá segja fulltrúar meirihlutans að við álagningu fasteignagjalda sé tekið tillit til hækkunar fasteignamats, sem hafi numið 72,3% í Norðurþingi frá árinu 2017. Meirihlutinn bendir einnig á að áætlunin hafi verið unnin í góðri samvinnu kjörinna fulltrúa og nefndarfólks, allir hafi haft tækifæri og nægan tíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri „og lítill ágreiningur komið fram um einstaka þætti áætlunarinnar í nefndum og ráðum,“ segir í bókun meirihlutans.
Heimild: Ruv.is