Home Fréttir Í fréttum Hefði aldrei samþykkt 800 milljóna Listasafn á Akureyri

Hefði aldrei samþykkt 800 milljóna Listasafn á Akureyri

140
0
Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks segist aldrei hefðu samþykkt framkvæmdir við Listasafnið á Akureyri ef kostnaðurinn hefði hljóðað upp á 800 milljónir. Framkvæmdirnar eru komnar 400 milljónir fram úr áætlun. Formaður bæjarráðs segir að gera hefði átt ráð fyrir hærri tölu við endurbæturnar og bærinn læri af málinu.

400 milljónir fram úr áætlun

Áætlaður kostnaður við endurbætur Listasafnsins á Akureyri er 835 milljónir og framkvæmdir við Sundlaugina eru farnar að nálgast 500. Báðar fara langt fram úr áætlun, eins og fram kom í fréttum í gær.

<>

Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir þetta óboðleg vinnubrögð. Pólitísk ákvörðun hafi verið tekin um að safnið kosti 440 milljónir og sundlaugin 285, þó að dýrari kostnaðaráætlanir hafi legið fyrir.

„Kannski fara þessar framkvæmdir ekkert í gegn ef raunkostnaður birtist í einhverjum tilvikum. Það getur vel verið að það sé þannig.”

Hefðu kannski átt að sjá þetta fyrir

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Framsóknarflokki og formaður bæjarráðs, segir hækkanirnar skýrast af breytingum á framkvæmdum, en bærinn læri af þessu.

„Auðvitað áttum við kannski að sjá það fyrir í upphafi, það er alveg rétt, en við vildum gera þetta af metnaði og gera þetta vel í báðum tilfellum, og þá kannski kemur eitthvað sem við þurfum að bæta inn í á framkvæmdatíma, og það er gert meðvitað.”

Listasafnið stórmál

Dæmi um svona framúrkeyrslu er að finna um allt land. Vaðlaheiðargöng, Hvalfjarðargöng, Harpa, Hof, Orkuveituhúsið, Kárahnjúkavirkjun, Þjóðarbókhlaðan… allt miklu dýrara en upphaflega stóð til. Er kannski bara einfaldara að afsaka sig eftir á, heldur en að biðja kjósendur um leyfi fyrir rosalega dýrum mannvirkjum?

„Mér finnst Listasafnið stórmál. Ef þetta hefði verið áætlað á 800 milljónir, hefðum við farið í þetta verkefni? Ég ætla ekki að svara því, ég hefði ekki samþykkt það, það er algjörlega á hreinu,” segir Gunnar.

Guðmundur segir bæinn hafa framkvæmt heldur lítið undanfarin ár.

„Vissulega stendur Akureyrarbær sterkt að vígi, þannig að skuldir eru ekki miklar og við stöndum ágætlega þannig að það voru til peningar fyrir þessum framkvæmdum.”

Heimild: Ruv.is