Home Fréttir Í fréttum Enginn vill sjá um Húsavíkurhöfðagöng

Enginn vill sjá um Húsavíkurhöfðagöng

177
0
Mynd: Gaukur Hjartarson - RÚV
Hvorki Vegagerðin né sveitarfélagið Norðurþing telja sig bera ábyrgð á rekstri Húsavíkurhöfðaganga. Vegagerðin ætlar að hætta afskiptum af göngunum frá og með 1. nóvember næstkomandi.

Þetta kemur fram í bréfi sem forstjóri Vegagerðarinnar sendi sveitarfélaginu þann 8. október. Þar segir að Vegagerðinni sé óheimilt að þjónusta Húsavíkurhöfðagöng af opinberu fé. Þau séu ekki á forræði stofnunarinnar og ekki sé gert ráð fyrir þjónustunni í fjárlögum.

<>

Ekki hluti af þjóðvegakerfinu

Jarðgöngin, sem eru tæpur kílómetri að lengd, liggja milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka. Þau voru opnuð fyrir tæpu ári og eru einkum ætluð vöruflutningum frá kísilverksmiðju PCC og hafnarinnar. Í Fréttablaðinu er haft eftir G. Pétri Matthíassyni, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, að göngin séu ekki hluti af þjóðvegakerfinu og ekki fyrir almenna umferð og því megi ekki nota almannafé til að reka þau. Stofnunin hafi einungis fengið það verkefni að byggja göngin og því sé lokið. Göngin kostuðu á fjórða milljarð króna úr ríkissjóði.

„Alvarleg staða“

Byggðaráð Norðurþings tók fyrir erindi Vegagerðarinnar á fundi í vikunni og lýsir yfir áhyggjum af stöðu málsins. Að mati byggðaráðs er uppi alvarleg staða sem hafi ófyrirséðar afleiðingar í för með sér gagnvart þeim fyrirtækjum sem þurfa að flytja hráefni til og frá iðnaðarsvæðinu. Þá segir byggðaráð alveg ljóst að sveitarfélagið Norðurþing ætli ekki að taka að sér rekstur og viðhald Húsavíkurhöfðaganga, enda hafi það alltaf átt að vera hlutverk ríkisins frá því ákveðið var að ráðst í framkvæmdina.

Hafa rætt um lausn málsins í heilt ár

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir að málið sé ekki alveg nýtt, það hafi verið til umræðu í meira en ár. „Við erum búin að vera í samtölum við ráðuneyti og ráðamenn um það hvernig eigi að leysa þetta og það hefur ekki tekist. Ég skil afstöðu Vegagerðarinnar ágætlega, það er ekki búið að setja fjármuni í verkefnið þeim megin og það þarf  auðvitað að gerast,“ segir Kristján Þór.

Var ekki búið að ákveða fyrirfram hver ætti að sjá um göngin þegar þau yrðu tilbúin? „Jú jú, við höfum allavega staðið í þeirri meiningu að einhver á vegum ríkisins, og eðlilegast að það væri Vegagerðin, myndi sjá um þessi göng. Þannig blasir þetta auðvitað bara við okkar megin,“ segir Kristján Þór.

Góð vetrarþjónusta lykilatriði

Kristján segir að þetta snúist fyrst og fremst um vetrarþjónustu á veginum norðan ganga og að iðnaðarlóðinni á Bakka. „Þetta eru gríðarlega þungir vagnar og bílar sem fara þarna með farm fram og til baka sem mega við litlu og það þarf að þjónusta veginn vel,“ segir hann.

Kristján segir ekki koma til greina að sveitarfélagið taki við verkefninu. „En við gætum auðvitað komið að rekstrinum sem slíkum ef fjármunum er veitt til verksins, en það er eðlilegast að þetta sé hluti af þjónustu Vegagerðarinnar hér á svæðinu,“ segir hann.

Göngin heyrðu upphaflega undir atvinnuvegaráðuneytið, í tengslum við uppbyggingu á Bakka. Vegagerðin heyrir hins vegar undir samgönguráðuneytið. „Við höfum verið mest í samtali við þessi tvö ráðuneyti og svo auðvitað ýtt á málið inni í fjármálaráðuneytinu,“ segir Kristján. Þessu megi líkja við stjórnsýslulega flækju. „Það þurfa ákveðnir aðilar að vera saman í herbergi í tvo, þrjá tíma og leysa þetta,“ segir Kristján Þór Magnússon.

Heimild: Ruv.is