Framkvæmdir við nýbyggingar þjóðgarðsins á Þingvöllum á Hakinu voru í lok maí komnar um 70 milljónir króna fram úr kostnaðaráætlun. Sýningarkostnaður hækkaði um 30 milljónir.
Einar Á. Sæmundsen þjóðgarðsvörður fór yfir stöðu framkvæmdanna á síðasta fundi Þingvallanefndar sem var 30. maí. „Framkvæmdir við anddyri eru að klárast og sýningarsalur í undirbúningi. Hefja á framkvæmdir við hellulögn utanhúss á næstu vikum,“ segir í fundargerð nefndarinnar.
Helstu skýringar á framúrkeyrslunni í kostnaðinum eru sagðar magnbreytingar í steypu og jarðvegsvinnu, meira eftirlit hjá Framkvæmdasýslu ríkisins og aukinn hönnunarkostnaður eftir að áætlun lauk.
Þá segir að kostnaður við sýningu hækki úr 320 milljónum í um 350 milljónir. „Þar koma til viðbætur í þremur sýningaratriðum, viðbætur við hljóðvist og frágangur við rafmagn.“ Þjóðgarðsvörður benti sérstaklega á að sýningin muni skila tekjum á næsta ári.
Heimild: Visir.is